Við þekkjum af eigin raun þær áskoranir sem konur mæta í leit sinni að lausnum tengt eigin heilsu. Hugmyndin að Venju hefur fengið að þróast og dafna með okkur undanfarin tvö ár. Í þeirri vegferð höfum við fengið að njóta dýrmæts liðsinnis sérfræðinga og fagfólks, bæði hérlendis og erlendis, til að ná markmiði okkar að geta boðið hágæða bætiefni sem eru hönnuð til að mæta ólíkum þörfum kvenna á öllum lífsskeiðum. Við viljum vera leiðandi í að breyta úreltu viðhorfi gagnvart bætiefnum þar sem hvatt er til ofneyslu þeirra og þar sem horft hefur verið fram hjá þörfum kvenna.
Í fyrstu var ætlunin að einfalda þann mikla frumskóg sem bætiefnamarkaðurinn er. Venja átti að vera lausn fyrir alla sem þurftu að nota bætiefni en vantaði leiðsögn. Við vissum hvaða áskoranir þessi hópur stóð frammi fyrir og það þekkja allir sem hafa keypt bætiefni að upplifunin er langt í frá að vera góð. Úrvalið er gríðarlegt, vöruheitin framandi og neytendur þurfa að auki að geta greint á milli misvísandi skilaboða sem koma úr öllum áttum. Bætiefnamarkaðurinn er hannaður til að rugla neytendur í ríminu og treystir á nýjar tískubylgjur til að halda áfram að vaxa.
Í þessu ferðalagi áttuðum við okkur á að þarfir kvenna eru gjörólíkar karla og við sáum fljótt að nær enginn á markaðinum væri að horfa til þessara síbreytilegu þarfa og þjónusta konur. Við sáum að rannsóknir á kvenlíkamanum, tíðahringnum, hormónum og konum almennt væru af afar skornum skammti. Það er því ekki skrýtið að konur mæti skilningsleysi í heilbrigðiskerfinu. Það er mun flóknara að rannsaka konur, því síbreytileg hormónastarfsemi okkar hefur áhrif á okkur og mótar okkur hvern einasta dag út alla ævi. Við erum aldrei eins.
Konur hafa þurft að treysta á hvor aðra til að afla upplýsinga um kvenlíkamann. Í gegnum mæður okkar, ömmur, vinkonur, systur og frænkur höfum við hvíslað okkar á milli og talað undir rós. Við skráum okkur í spjallhópa, leitum upplýsinga á netinu, lesum bækur. Við skipuleggjum lífið okkar út frá tíðahringnum. Við teljum daga, skráum niður og mælum hita ef við þráum að eignast barn. Við vitum líka að sú vegferð getur verið flókin og erfið.
Tíðahringurinn hefur áhrif á meira en getu okkar til að eignast barn. Hann getur líka haft neikvæð áhrif og verið okkur mikil byrði. Hormónin sem stýra tíðahringnum leita sífellt jafnvægis til að viðhalda hringrásinni – en svo það náist krefst tíðahringurinn mikils af líkama okkar. Hann þarf rétta næringu, hreyfingu, minni streitu. Álagið má ekki vera of mikið, heldur ekki of lítið. Þetta stórkostlega en jafnframt hárfína ferli sem tíðahringurinn er getur svo auðveldlega raskast og afleiðingarnar geta verið allt frá því að vera smávægilegar eða langvarandi. Að auki glímum við margar við flókna og erfiða kvensjúkdóma á borð við PCOS og endómetríósu sem hafa umtalsverð áhrif á getu okkar til að lifa eðlilegu lífi en enn er engin lækning fyrir. Breytingaskeiðið er svo tímabil í lífi allra kvenna sem ná ákveðnum aldri og er fullkomlega náttúrulegt ferli en hlaðið fordómum og fáfræði sem enginn ávinningur er af. Það liggur í hlutarins eðli að það gengur ekki lengur að hvísla okkar á milli um þessa hluti.
Þannig varð hugmyndin að Venju til. Við erum konur og þekkjum það af eigin raun að líkami okkar er flókinn og margslunginn. Næringarþarfir okkar breytast í takt við flókna og síbreytilega hormónastarfsemi, því ættu bætiefnin sem við tökum að gera það líka. Við höfum hannað bætiefnin okkar frá grunni til að mæta þessum síbreytilegu þörfum þar sem hver og einn pakki er ætlaður sérstöku lífsskeiði. Hvort sem þú ert með reglulegar blæðingar, ert barnshafandi eða á breytingaskeiðinu ættir þú að finna vítamínrútínuna þína hjá okkur. Við vitum líka að konur hafa í nægu að snúast og vilja verja tímanum sínum í annað en að kafa ofan í bætiefni. Þess vegna höfum við einfaldað allt ferlið, pökkum bætiefnunum okkar í dagpakka og sendum þér heim að dyrum hvern mánuð.
Taktu þátt í ferðalaginu með okkur og finndu þína Venju.